Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Heimskur, heimskari og ALCOA

Ég hef tekið eftir umræðunum um ALCOA, bæði á blogginu og gömlu fjölmiðlunum, upp á síðkastið.  Það vantar fleira fólk á Reyðarfjörð til að halda þessu langþráða álveri gangandi.

 

Það vill svo til að ég þekki nokkra sem unnið hafa í þessu álveri.  Það sem er sameiginlegt fyrir þá alla er að þeir hættu eftir stuttan tíma. Ástæðan var sú sama hjá öllum.  Alltof lág  laun fyrir alltof mikla vinnu.

 

Þetta er nákvæmlega það sama og gerst hefur í Noregi.  Álgreifarnir vildu lækka laun starfsfólks og fá meira í sinn vasa.  Það tókst ekki og því hefur fjölda álvera verið lokað hér. Munurinn var reyndar sá að norsk stjórnvöld borguðu ekki með rafmagninu til álveranna eins og gert er á Íslandi.

Á sama tíma keppast meingölluð íslensk stjórnvöld og sauðheimskar sveitastjórnir við að fá ný álver í bakgarðana sína. Nú eru það Keflvíkingar og Húsvíkingar sem vilja álver alveg eins og Reyðfirðingar.

 

Það er ótrúlegt að núverandi ríkisstjórn skuli ekki hafa lært nokkurn skapaðan hlut af Reyðarfjarðardæminu sem á stóran þátt í efnahagsógöngum þjóðarinnar í dag. Erlent fjármagn flæddi inn í landið og Davíð, Geir og Árni Matt kunnu ekki að bregaðst við peningaflæðinu.  Þegar svo framkvæmdir við verskmiðjuna og virkjunina sem sjálfsagt þurfti líka drógust saman sprakk blaðran og kreppa og verðbógla brast á með látum.

 

Og enn ljá stjórnvöld máls á vitleysunni sem kemur til með að halda Íslandi sem láglaunasvæði áratugum saman meðan verið er að greiða niður virkjunarkostnaðinn og styrkja þá verktaka sem nánast fara beint á hausinn um leið og framkvæmdunum við mannvirkin lýkur.

 

Og svo halda menn að álver geri þjóðina hamingjusama.

   


Þjóðarsátt um aðgerðaleysi

Það er dálítið einkennilegt að fylgjast með því sem gerist eða ekki gerist í íslensku samfélagi þessar stundirnar.  Sérstaklega á þetta við þegar maður hefur fengið reynslu af því að búa í landi þar sem efnahagsástandið er nokkuð stöðugt.  Í Noregi er það nefnilega þannig að bæði ríki, fyrirtæki og almenningur hefur það nokkuð þokkalegt í því stöðuga góðæri sem verið hefur í konungsríkinu síðustu árin.

 

Á Íslandi virðist ástandið aðeins öðruvísi.  Nýbúið að skrifa undir kjarasamninga og hálfum mánuði síðar eru launþegar komnir í verri stöðu en þeir voru fyrir samningana.  Gamla “góða” verðbólgan sér um sína.  Það er náttúrulega ákveðin stöðugleiki en kanski ekki sá sem fólkið vill.

 

Svo, eins og venjulega, koma stjórnvöld fram eftir að hafa setið aðgerðalaus í langan tíma og hrópa á hjálp í formi þjóðarsáttar.  Mér sýnist að sú þjóðarsátt sé um ekki neitt. Alla vega eru engar vísbendingar um aðgerðir ríkistjórnarinnar svo það er eðlilegt að margir spyrji sig út á hvað þessi þjóðarsátt eigi að ganga.

 

Annars lítur út fyrir að þjóðarsátt Geirs og Ingibjargar gangi út á að skerða enn frekar kjör láglaunafólks og eftirlaunaþega meðan svo kallaðir aðilar vinnumarkaðarins (eigendur fyrirtækjanna) verði styrktir enn frrekar af stjórnvöldum.  Það þýðir einfaldlega aukin miskipting í okkar annars æði miskipta samfélagi.

 

Þjóðin á alla vega kröfu á að vita út á hvað þjóðarsáttin á að ganga.

Ef það á að vera eitthvert leyndarmál vita allir hvað gerist.  Það verður samfélagskreppa hjá láglaunafólki og þeirra sem þurfa á ummönnun að halda meðan sjálftökugreifarnir fitna sem aldrei fyrr með hjálp ríkistjórnarinnar.

 

Og allt er þetta vegna vangetu ríkistjórnarinnar og mistaka í Seðlabankanum

GÞÖ


Kirkjan og kynferðisglæpamenn

 

Gunnar Björnsson er með storminn í fangið þessa dagana. Þetta er svo sem ekki fyrsta brælan sem hann lendir í á prestferlinum en hingað til hefur hann komið sæmilega heill í höfn.

 

Að þessu sinni eru það meint kynferðisafbrot sem borin eru á prestinn.  Við slíkum áburði er ekki nóg skipta skrá i kirkjudyrunum til að loka prestinn úti.

 

Kynferðisafbrot eiga hvergi heima og alls ekki meðal kirkjunnar þjóna. Samt er það svo að Gunnar Björnsson er ekki fyrsti íslenski presturinn sem fær á sig orðróm um óæskilegt kynferðisáreiti. Það eru ekki mörg ár síðan orðrómur um að einn af fyrrum biskupum okkar hafi gengið of langt í að gefa konum áreitandi auga. 

 

Það sem er alvarlegast við kynferðisafbrot er að oft eru glæpamennirnir  menn sem fórnarlömbin treysta 100%.  Sóknarbörn treysta prestum sínum oft betur en öðrum og leita til þeirra á erfiðum stundum. Glæpurinn getur ekki orðið ógeðslegri en þegar prestur nýtir sér traustið með kynferðislegri áreitni.

 

Ný segist Gunnar aðeins hafa faðmað og kysst stúlkurnar ungu á kynnina og vonandi er glæpur hans ekki meiri enn það.  En það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig ráðuneytið, biskupsstofa og lögregla rannsaka þetta mál í ljósi þeirra rannsókna sem slík mál hafa áður fengið hjá kirkjunni.

 

Í Skandinavíu og víðast hvar í hinum siðaða heimi eru kynferðisbrotamál inna kirkjunnar rannsökuð ofan í kjölinn. Reynist áburðurinn sannur taka kirkjunnar þjónar, eins og aðrir glæpamenn sem á sannast sök, afleiðingunum með fangelsisvist og fjársektum.

 

Það er tími til kominn að íslenska kirkjan fari í rækilega sjálfskoðun. 

Orðrómur um kynferðislega áreitni kirkjunnar þjóna er áfall.  Þegar orðrómurinn kemur upp aftur er það stóráfall.

GÞÖ

 

      


Evra, Ísland og Litháen

Ég brá mér, eins og um 200 aðrir Íslendingar, til Litháen um helgina. Þangað er alltaf gaman að koma að það klikkar ekki að Litháar taka vel á móti Íslendingum.  

 

Í þetta sinn brugðum við okkur í skoðunarferð ásamt 27 einstaklingum af fjölmörgum þjóðernum.  Eins og góðs fararstjóra er von og vísa spurði farastjórinn alla hvaðan úr heiminum við kæmum. Þegar við Íslendingarnir sögðum frá uppruna okkar kóm sú litháíska strax með aðra spurningu. “Vitiði af hverju okkur Litháum þykir vænna um Íslendinga en aðrar þjóðir?”  Þetta vissi náttúrulega engir í rútunni nem við Íslendingarnir. Þess vegna var það ansi notalegt að heyra hana segja hinum farþegunum frá því, með stolti, að Ísland hafi verið fyrsta þjóðin sem virðukenndi sjálfstæði Litháen þegar þjóðin reif sig út úr hrammi ráðstjórnaródýrsins.

 

En hún nefndi líka annað sem á vel við evru-umræðuna á Íslandi í dag.  Litháen, sem er í ESB, fékk ekki að taka upp evruna þegar þeir sóttu um það því verðbólgan var í landinu alltof há eða um 11%.  

 

Það vantar því verulega á að hagstjórnin okkar verði viðurkennd í Brussel og ESB-draumamönnunum verði að að ósk sinni um upptöku evru á Íslandi.

 

Og það segir æði mikið um hagsæld Íslendinga í samanburðinum við þjóðirnar sem við helst viljum líkja okkur við.

GÞÖ

orangetours.no


Knattspyrnuvellir og Reykjavíkurborg

Hvað hefur borgin verið að gera? Þessari spurningu veltu vinir mínir Valtýr Björn og Guðmundur Hilmarsson fyrir sér í þættinum “Fótboltasumar” á RÚV-inu í gær.  Þeir voru að ræða aðkomu borgarinnar að uppbyggingu knattspyrnuvalla fyrir Reykjavíkurfélögin og voru sammála um að borgin hefði lítið sem ekkert gert fyrir Fram, Fjölni og Þrótt sem ekki eiga nothæfa velli fyrir efstu deild knattspyrnunnar.

 

Ég er svo sem alveg sammála þeim. Borgin hefur lítið sem ekkert gert. En ég er ósammála þeim í einu.  Borgin á alls ekki að hafa neina forgöngu um að byggja upp fótboltavelli sem standa undir ströngustu kröfum UEFA.  Það er sjálfsagt að borgin skaffi félögunum svæði og byggi upp æfingavelli fyrir börn og unglinga en félögin eiga sjálf að sjá sér fyrir keppnisvöllum.

 

Þetta hafa norsku félögin gert með góðum árangri. Þau byggja upp flotta velli með stúkum fyrir 10 – 20 þúsund áhorfendur í sætum.  Undir áhorfendastúkunum skapast að sjálfsögðu mikið pláss sem hægt er að leigja út til fyrirtækja sem standa að stórum hluta undir byggingu og rekstri mannvirkjanna.

 

Sem dæmi skal ég nefna Lilleström sem hefur byggt upp frábæra áhorfendastúku kringum völlinn sinn á ,Åråsen, þar sem þeir hýsa bílasölu, bókabúð, bílaverkstæði, læknastofur og verslanir undir sætunum.

 

Breytingin á Åråsen hefur orðið til þess að nú eru áhorfendur að meðaltali um 9000 á heimaleikjum Lilleström í stað um 5000 áður.

 

Ef við ætlumst til þess að Íslendingar komi í meira mæli á völlinn til að sjá fótbolta verður að laga umgjörðina í kringum leikina.  Það verður ekki gert nema öll aðstaða batni verulega sem kallar á lokaðar og yfirbyggðar stúkur í kringum vellina. Úrvalsdeildarfélögin þurfa að 4 – 8 þúsund sæta stúkur til að byggja upp almennilega umgerð í kringum knattspyrnuleiki. Það getum við gert á Íslandi ekkert síður en gert hefur verið í Noregi.

 

En ef við gerum það ekki er alveg eins gott að hætta að taka þátt í Evrópukeppnunum. Við höfum ekkert þar að gera án fótboltavalla sem hæfa þeim viðburði sem alvöru knattspyrnuleikur er.  

 GÞÖ

orangetours.no    

  

« Fyrri síða

Höfundur

Dunni
Dunni

Strákur frá Eskifirði sem starfað hefur við sjómennsku, blaðamennsku, kennslu og ýmis önnur störf frá fermingarárinu 1966. Bý og starfa í höfuðborg konungsríkisins Noregs núna og þvælist mikið í fjölmenningarsamfélagi borgarinnar.

orangetours.no 

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Tónlistarspilari

Alvin Lee - 11 - Love Like A Man [Live]

Nýjustu myndir

  • Dirk Kuyt Liverpool T
  • Búsáhaldabyltingin
  • Dirk Kuyt Liverpool T
  • Hermann Hreiðarsson stoppar Helstad
  • Illugi Gunnarsson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband